Erlent

Bjarga 3000 námumönnum

Björgunarmenn byrjuðu snemma í morgun að bjarga námumönnum sem festust í gullnámu sem er staðsett áttatíu kílómetra vestur af Jóhannesarborg.

Búið er að bjarga 350 manns en yfir þrjú þúsund festust í námunni í gærmorgun. Óhappið varð á þann hátt að leiðsla sprakk með þeim afleiðingum að rafmagnskaplar sem leiddu að lyftu í göngunum slitnuðu og verkamenn festust á rúmlega tveggja kílómetra dýpi.

Amelia Soares, talskona eiganda námunnar, sagði við fjölmiðla að hjúkrunarfólk væri komið að námumönnunum og hefðu fullvissað sig um að enginn væri slasaður. Hún sagði jafnframt að ekkert hefði hrunið úr veggjum námunnar og að engin hætta væri á flóðum í göngunum þannig að námumennirnir væru öruggir.

Lesiba Seshoka, talsmaður stéttarfélags námuverkamanna, sagði við fjölmiðla að útgönguleiðum úr námunni hefði ekki verið viðhaldið nógu vel. Hún sagði einnig að námur í Suður-Afríku væru yfirleitt mjög óöruggar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×