Erlent

Óháður ráðherra í þjóðstjórn segir af sér

Ráðherra í þjóðstjórn Palestínumanna hefur sagt af sér vegna vaxandi átaka milli fylkinganna sem standa að stjórninni, Fatah og Hamas.

Eftir því sem fram kemur á vef BBC hefur Ismail Haniya, forsætisætisráðherra Palestínu, fallist á afsögn innanríkisráðherrans en hann tilheyrir hvorugri fylkingunni og hefur gagnrýnt hversu illa er haldið á öryggismálum á heimastjórnarsvæðunum.

Átök blossuðu upp á ný á Gaza-svæðinu í nótt á milli Hamas- og Fatah-liða og er talið að tveir hafi látið lífið og að minnsta kosti tíu manns særst. Vopnahléi hafði verið komið á í gærkvöldi fyrir tilstuðlan erindreka frá Egyptalandi en það virðist ekki hafa dugað.

Átök hófust á ný um helgina þegar að einn af leiðtogum Fatah-hreyfingarinnar var myrtur í umsátri. Herskáir Fatah-menn kenndu Hamas um ódæðið en því neita Hamas-samtökin. Stuttu seinna áttu átök sér stað og voru flestir þeir sem særðust í þeim tengdir Hamas. Átökin eru þau mestu síðan fylkingarnar tvær komu sér saman um að mynda þjóðstjórn í Palestínu í mars síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×