Erlent

Sjálfsmorðsárás í Casablanca í morgun

Tveir sjálfsmorðsárásarmenn sprengdu sjálfa sig í loft upp nærri ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Casablanca í Marokkó í morgun. Engan annan sakaði í árásinni.

Lögregla í Casablanca telur að árásunum hafi verið beint gegn ræðismannsskrifstofunni en vegna strangrar öryggisgæslu í kringum hana tókst mönnunum ekki að komast nógu nálægt til að valda þar skaða. Lögregla girti svæðið af og leitar nú þriðja mannsins sem sást hlaupa af vettvangi skömmu eftir sprengingarnar.

Aðeins eru fjórir dagar síðan þrír sjálfsmorðsárásarmenn tóku eigið líf eftir að lögregla hafði sótt að þeim í húsakynnum þeirra í Casablanca. Eru þeir taldir félagar í hópi sem leystur var upp í síðasta mánuði. Hann hafði meðal annars á prjónunum að ráðast á skemmtiferðaskip við borgina og vinsæl hótel á helstu ferðamannastöðum í Marokkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×