Fótbolti

Boca Juniors mætir Gremio í úrslitum

Það verða Boca Juniors frá Argentínu og Gremio frá Brasilíu sem mætast í úrslitaleik Copa Liberdadores í Suður-Ameríku þetta árið eftir að Boca vann 3-0 sigur á Cucuta í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar í gærkvöld. Það var leikstjórnandinn knái Juan Roman Riquelme sem var maðurinn á bak við sigur Boca, sem fór áfram 4-3 samanlagt.

Riquelme var í miklu stuði í leiknum og skoraði mark auk þess að spila félaga sína vel uppi með snörpum sendingum. Fresta þurfti leiknum um 45 mínútur vegna þoku og reyndar voru skilyrði til knattspyrnuiðkunar ekki glæsileg á fyrstu mínútum leiksins.

Það var Riquelme sem skoraði fyrsta mark leiksins beint úr aukaspyrnu eftir hálftíma leik, en fram að því hafði það verið markvörður Cucuta sem hélt sínum mönnum inni í leiknum með frábærri markvörslu. Markahrókurinn Martin Palermo skoraði svo annað mark Boca í leiknum eftir hornspyrnu og miðjumaðurinn Sebastian Battaglia skoraði úrslitamarkið sjö mínútum fyrir leikslok. Boca hefur sex sinnum unnið sigur í þessari skemmtilegu keppni en Gremio hefur sigrað tvisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×