Erlent

Dato fyrsta fórnarlambið í fríblaðastríðinu í Danmörku

Tilkynnt var um það í dag að hætt yrði að gefa út danska fríblaðið Dato en blaðið rennur saman við annað slíkt, Urban. Fram kemur í dönskum miðlum að blaðið komi ekki oftar út og haft er eftir forsvarsmönnum Berlingske Officin, sem gaf út blaðið, að raunveruleikinn á fríblaðamarkaðnum hafi ekki samræmst væntingum eigendanna.

Í staðinn á að styrkja Urban sem félagið segir að hafi sterkari stöðu. Því blaði er aðeins dreift á fjölförnum stöðum eins og lestarstöðvum. Dato átti að vera svar Berlingske Officin við Nyhedsavisen sem er í eigu Íslendinga.

Dato kom fyrst út 16. ágúst í fyrra, fyrst þriggja fríblaða sem dreift var í hús í Danmörku. Hins vegar hafa verið vandræði með dreifingu blaðsins frá upphafi og hafði það mikið að segja um þá ákvörðun eigendanna að hætta útgáfu þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×