Sir Alex Ferguson gróf andlit sitt í hendur sínar þegar hann var spurður hvað honum þættist um dómara leiks Sporting Lissabon og Manchester United í kvöld.
"Á einhver Mogadon?" spurði Ferguson. Mogadon er sljóvandi lyf.
Dómarinn sem um ræðir er Þjóðverjinn Herbert Fandel. Hann rak Roy Keane af velli í leik gegn Porto árið 2004 en Ferguson vildi meina að leikmaður Porto hafi tekið dýfu. Ferguson neitaði meira að segja að taka í hendurnar á þáverandi stjóra Porto, Jose nokkurn Mourinho.
Fandel gaf svo Paul Scholes reisupassann þegar United tapaði fyrir AS Roma á útvelli í fyrra. Ferguson sakaði Fandel um að hafa dæmt Ítölunum í hag.
Þar að auki hefur Ferguson ekki verið sáttur við dómgæsluna í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili. Honum finnst til að mynda að verið sé að refsa Cristiano Ronaldo fyrir velgengni sína. Ronaldo fékk rautt spjald í leik gegn Portsmouth og svo gult fyrir meintan leikaraskap gegn Everton um helgina.
Ronaldo samsinnti þessu. "Stjórinn hefur rétt fyrir sér - en ég vil ekki tjá mig um dómara."