Enski boltinn

QPR: Leikmenn hugsanlega reknir fyrir slagsmál

Gianni Paladini, stjórnarformaður QPR á Englandi, segir að vel komi til greina að reka leikmenn frá félaginu eftir að þeir lentu í hörkuslagsmálum við U-23 ára landslið Kína í æfingaleik á æfingasvæði enska félagsins í gærkvöld. Einn kínversku leikmannanna var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús eftir átökin.

Knattspyrnusambandið hefur þegar hafið rannsókn á þessu ljóta atviki og það ætla forráðamenn QPR einnig að gera. "Ef lögreglurannsókn leiðir í ljós að okkar menn hafi gerst brotlegir kemur til greina að þeim verði vísað frá félaginu. Við viljum ekki að svona lagað gerist í knattspyrnu," sagði Paladini.

Talsmaður kínverska liðsins var í öngum sínum yfir uppákomunni og tók alla ábyrgð á sjálfan sig. "Við viljum ekki gefa svona mynd af kínverskum íþróttamönnum og þó leikmennirnir séu á bak við þessi læti, verð ég að axla ábyrgðina. Við vorum búnir að ræða við leikmennina vegna hegðunar þeirra undanfarið og undirstrikuðum það fyrir þennan leik - en svo virðist sem leikmenn okkar geti ekki haft stjórn á sér," sagði hann.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×