Erlent

Brixtofte dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir umboðssvik

Peter Brixtofte, fyrrverandi bæjarstóri í Farum í útjaðri Kaupmannahafnar, var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir umboðssvik í opinberu starfi. Dómnum er ekki hægt að áfrýja eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins.

Brixtofte var ákærður fyrir að hafa látið bæjarsjóð Farum borga fyrirtækinu Skanska 9 milljónir danskra króna meira fyrir byggingu á vegum bæjarins en eðlilegt var. Í staðinn lagði Skanska fram um 10 milljónir danskra í styrk til handboltaklúbbsins Ajax-Farum. Klúbburinn var dótturfélag Farum Boldklub þar sem Brixtofte var formaður og hluthafi. Dómurinn þýðir að Brixtofte þarf að hætta í bæjarstjórn Furesö þar hann nýtur ekki lengur trausts.

Peter Brixtofte hafði verið fundinn sekur um umboðssvikin í undirrétti en áfrýjaði dómnum og bar við sakleysi. Í sama máli voru þrír aðrir sakfelldir en þeir fengu allir skilorðsbundna dóma.

Raunum Brixtofte er þó langt í frá lokið því von er á öðrum dómi í næsta mánuði vegna annarra brota hans í starfi. Um er að ræða þrjá ákæruliði sem snúa að umboðssvikum og fimm ákæruliði sem snúa að misnotkun stöðu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×