Erlent

Vindhviður sagðar hafa farið upp í 73 metra á sekúndu

MYND/AP

Íbúar í miðhluta Flórída sem urðu fyrir barðinu á kröftugum stormi sem gekk yfir svæðið á föstudag héldu í dag áfram að leita að heillegum munum í rústum húsa sinna. Fram kemur á fréttavef CNN að vindhviður hafi farið upp í 73 metra á sekúndu og rifið allt sem á vegi þeirra varð.

Tuttugu létust í hamförunum í tveimur bæjum í Flórída og talið er að um 1500 heimili hafi eyðilagst eða skemmst mjög mikið. George Bush Bandaríkjaforseti lýsti í gær yfir neyðarástandi í þremur sýslum á svæðinu og greiddi þannig fyrir því að íbúar á svæðinu fengju fjárhagsaðstoð frá yfirvöldum vegna tjónsins en stjórnvöld í Washington voru harðlega gagnrýnd fyrir ófullnægjandi aðstoð eftir yfirreið fellibyljarins Katrínar árið 2005.

Það varð hins vegar ekki aðeins mann- og eignatjón í veðurhamnum á Flórída á föstudag því 18 norðuramerískar trönur sem fluttar höfðu verið frá Wisconsin til Flórída í von um að styrkja stofninn, sem er í útrýmingarhættu, drápust allar í illviðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×