Umboðsmaður búlgarska framherjans Dimitar Berbatov hjá Tottenham segir engar líkur á því að markaskorarinn fari frá félaginu. Berbatov er búinn að skora 19 mörk á leiktíðinni og hefur slegið í gegn síðan hann kom frá Leverkusen í sumar.
"Það er eðlilegt að lið sýni leikmönnum áhuga þegar þeim gengur vel en Dimitar er með fínan samning við Tottenham og verður hjá liðinu í það minnsta út næsta tímabil," sagði umboðsmaðurinn. Berbatov átti í viðræðum við Manchester United áður en hann ákvað að fara til Lundúna og talið er að United og Liverpool hafi bæði áhuga á framherjanum knáa.