Erlent

Blair vill ekki í stríð við Íran

AP

Tony Blair segist andvígur innrás í Íran og er því í andstöðu við stjórnvöld í Bandaríkjunum. Forsætisráðherrann lét hafa þetta eftir sér áður en eftirlitsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar upplýstu að Íranir væru enn að auðga úran.

Breskir stjórnmálaskýrendur segja að Blair sé farinn að óttast að Bush ætli að útkljá kjarnorkudeiluna við Írani með vopnavaldi á næsta ári áður en hann lætur af embætti forseta Bandaríkjanna. Bush vilji ekki láta eftirmanni sínum eftir að leysa málið.

Þó virðist sem bandarísk stjórnvöld séu ekki einhuga um hvaða aðgerða eigi að grípa til gagnvart Írönum. Til að mynda hefur Robert Gates varnarmálaráðherra sagt að hann vilji stofna til tvíhliða viðræðna við stjórnvöld í Teheran en hann er talinn andstæðingur stríðsrekstrar í Íran. Þá er einnig talið að Condoleeza Rice utanríkisráðherra vilji láta reyna á friðsamlegar leiðir. Haukarnir sem vilja stríð eru Dick Cheney varaforseti og Bush forseti sjálfur.

Blair sagði í viðtali á BBC í gær að hann geti ekki séð að það væri gæfuspor að ráðast inn í Íran. Mikilvægt væri að reyna pólitískar og friðsamlegar lausnir. Fastafulltrúar í Öryggisráði S.þ. hittast svo í London eftir helgi þar sem lögð verða drög að nýrri ályktun gegn kjarnorkuáætlunum Írana.

Íranir hafa sjálfir sagt að rétturinn sé þeirra megin og að þeir auðgi úran í friðsamlegum tilgangi, þeir ætli að framleiða rafmagn, ekki vopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×