Erlent

Palestínumenn viðurkenni Ísraelsríki

Angela Merkel og Mahmoud Abbas
Angela Merkel og Mahmoud Abbas AP

Angela Merkel kanslari Þýskalands leggur áherslu á að palestínsk stjórnvöld viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis annars muni Evrópusambandið ekki aflétta viðskiptaþvingunum. Merkel gegnir nú embætti forseta sambandsins.

Mahmoud Abbas forseti heimastjórnar Palestínu er í heimsókn í Berlín þar sem hann fundaði með Merkel í dag. Bæði Rússland, Bandaríkin, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar eru samstíga um að Palestínumenn verði að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis en unnið er að því að ljúka við myndun þjóðstjórnar í Palestínu eftir að samkomulag náðist um það á fundi Abbas og leiðtoga Hamas-samtakanna í Mekka fyrr í mánuðinum. Hamas-samtökin hafa hningað til ekki viljað viðurkenna Ísrael.

Þjóðverjar hafa gert friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs að helsta stefnumáli sínu á meðan þeir fara með forsæti Evrópusambandsins næsta hálfa árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×