Erlent

Borgaryfirvöld buðu ungmennum annað hús

Ungdomshuset sem nú er horfið
Ungdomshuset sem nú er horfið Getty Images

Það lá fyrir tilboð um að selja notendum Ungdomshuset á Norðurbrú annað húsnæði á Stevnsgade sem er nærri Jagtvej 69 þar sem Ungdomshuset stóð en því tilboði var ekki tekið. Þetta segir Ritt Bjerregaard borgarstjóri Kaupmannahafnar.

Hún segist ekki skilja hvers vegna ungmennin gengu ekki að tilboðinu. Bjerregaard hélt blaðamannafund um málið í dag og höfðu mótmælendur komið spurningum til blaðamanna. Þegar Ritt var spurð hvort það hefðu verið mistök að selja Ungdomshuset svaraði hún því til að það hefðu verið mistök að láta ungmennin hafa húsið árið 1982, að það hafi aldrei gengið vegna þess að borgaryfirvöld báru ábyrgð á starfsemi þess og slíkt mætti aldrei endurtaka sig.

Þá segist Bjerregaard hafa biðlað beint til Ruth Evensen forstöðumanns Faderhuset-trúarsafnaðarins um að hún seldi notendum hússins það aftur en það hafi verið skýr afstaða Faderhuset að selja ekki og því hafi ekkert annað verið hægt að gera en að leita að nýju húsnæði undir starfsemina. Þá hafi borgaryfirvöld boðið ungmennunum húsið við Stevnsgade en þau ekki gengið að tilboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×