Erlent

Howard tapaði forsætisráðherraembætti

Ástralar skiptu um forsætisráðherra í morgun. Kosið var til þings í nótt. John Howard, forsætisráðherra síðustu ellefu ára, tapaði embættinu og virðist ekki halda þingsæti sínu í þokkabót.

Stjórnmálaskýrendur í Ástralíu sögðu í gær að skoðanakönnunarfyrirtæki í landinu hefðu allt eins getað pakkað saman og hætt störfum hefðu úrslit kosninganna orðið á annan veg. Kevin Rudd í verkamannaflokknum var fyrir löngu spáð sigri og Howard sagður þurfa kraftaverk til að halda í embættið.

Howard sagðist raunsær þegar hann greiddi atkvæði í Sydney í nótt að íslenskum tíma. Stuðningsmönnum hans hefði vissulega fjölgað rétt fyrir kjördag samkvæmt könnunum en óvíst væri hvort það dygði.

Rudd og kona hans fóru á kjörstað í Brisbane á sama tíma og voru sigurviss. Ástrala væri nú að velja og hann væri afar sáttur við þau mál sem hann hefði lagt upp með kynnt kjósendum.

Byrjað var að loka kjörstöðum klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og samkvæmt útgönguspám var Verkamannaflokkurinn með fimmtí og þrjú prósent atkvæða en Frjálslyndi flokkurinn með fjörutíu og sjö prósent. Fyrstu tölur benda til þess sama og útlit fyrir að Howard nái ekki einu sinni sjálfur á þing í sínu einmenningskjördæmi. Hann tapi þingsætinu til Maxine McKew, fyrrverandi sjónvarpsfréttakonu og frambjóðana Verkamannaflokksins.

Það var svo rétt um klukkan tíu í morgun að íslenskum tíma sem Rudd lýsti yfir sigri.

Þrettán og hálf milljón Ástrala er á kjörskrá og ber öllum að kjósa samkvæmt lögum - því er kjörsókn ekki atriði í þessari baráttu - einna helst að auðir seðla og ógildir skipti máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×