Erlent

Skattar lækkaðir og kosið um evruna

MYND/Reuters

Ný ríkisstjórn Danmerkur hyggst lækka tekjuskatta umtalsvert og þá á að kjósa um evruna. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Speglasalnum í forsætisráðuneyti Danmerkur í dag þar sem ný ríkisstjórn Venstre Íhaldsflokksins, Danska þjóðarflokksins og Nýja bandalagsins kynnti stefnumál sín.

„Það á að borga sig að vinna og þess vegna viljum við lækka skatttana," sagði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundinum. Þá greindi hann einnig frá að skattaafsláttur yrði aukinn til þess að styðja við umhverfisvernd.

Til stendur að nefnd skoði það hvernig hægt sé að lækka skatta þannig að það verði réttlátt gagnvart sem flestum og innan ramma efnahagslífsins. Á nefndin að skila tillögum í byrjun árs 2009. Nokkrar deilur hafa verið um skattalækkanir í landinu og hefur Danski þjóðarflokkurinn verið andvígur hugmyndum sem fram hafa komið. Með nefndinni á að reyna að ná sátt um skattalækkanirnar.

Þá sagði Rasmussen að Danir þyrftu að taka afstöðu til þeirra fjögurra undanþága sem Danir hafa fengið frá Evrópusamstarfinu en þeir fengu aðild að ESB án þess að taka þátt í samvinnu á nokkrum sviðum. Meðal þeirra eru aðild að myntbandalaginu og þar með evrunni og aðild að varnarsamstarfi ESB-ríkjanna. Ekki liggur hins vegar fyrir hvernær kosið verður um undanþágurnar og hvort kosið verði um þær allar í einu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×