Erlent

Trúnaðarupplýsingar um helming Breta hurfu í pósti

Fjármálaráðherra Bretlands sætir nú mikilli gagnrýni eftir að hann upplýsti að tölvudiskar með trúnaðarupplýsingum um 25 milljón Breta hurfu í pósti fyrir þremur vikur síðan

Málið hefur þegar kostað Paul Grey skattstjóra Bretlands starfið og raddir gerast háværar um að Alistair Darling fjármálaráðherra segi af sér. Tölvudiskar þeir sem hér um ræðir voru sendir með venjulegum pósti frá skattstofunni til embættis ríkisendurskoðunnar í Bretlandi.

Á þeim eru trúnaðarupplýsingar um helming þjóðarinnar þar á meðal kennitölur, upplýsingar um greiðslur á barnabótum og númer á bankareikningum. Komið hefur fram að Darling og Gordon Brown forsætisráðherra fengu vitneskju um málið þann 10. nóvember síðast liðinn.

Lögreglurannsókn er hafin á hvarfi diskanna en þar sem póstsendingin var ekki skráð er illmögulegt að vita hvar hún hefur horfið í kerfinu eða hvort hún hafi náð til póstsins yfir höfuð.

Talið er að mikið álag verði í bönkum Bretlands í dag þar sem óttaslegnir íbúar Bretlands muni vilja loka reikningum sínum eða í það minnst breyta um númar á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×