Innlent

Fara fram á lögbann á torrent.is

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.
Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS. MYND/Anton Brink

Samtök myndréttarhafa á Íslandi, Samtök tónlistarrétthafa og Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda hafa farið fram á tímabundið lögbann á starfsemi skráardeilningarsíðunnar torrent.is vegna gruns um höfundarréttarbrot.

Svavar Lúthersson, eigandi torrent.is, fékk í morgun heimsókn frá fulltrúum Sýslumannsins í Hafnarfirði, lögreglumönnum og lögmanni Samtaka myndrétthafa, SMÁÍS, vegna málsins og er hann nú skýrslutöku hjá sýslumanni.

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, sagði í samtali við Vísi að skýrslutakan tengdist lögbannsbeiðni sem rétthafar á kvikmyndum, tónlist og sjónvarpsþáttum hefðu lagt fram á vefinn torrent.is en sú beiðni var tekin fyrir hjá sýslumanni í dag. Hann býst við að sýslumaður taki fyrir lögbannskröfuna eftir skýrslutöku í dag.

„Við viljum fá lögbann á vefinn og að lögreglan taki tækjabúnað torrent í sína vörslu á meðan mál á hendur fyrirtækinu er fyrir dómi," segir Snæbjörn. Forsvarsmenn SMÁÍS, Samtóns og SÍK saka Svavar um að auðvelda og stuðla að höfundarréttarbrotum með því að heimila skráarskipti á torrent.is. Snæbjörn segir brotin snúa að ólöglegu niðurhali á sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum, tónlist og innlendum og erlendum kvikmyndum.

„Við erum ekki að ásaka Svavar sjálfan um að brjóta höfundarréttarlög með beinum hætti heldur um hlutdeildarbrot, það er með því að eiga og reka vefinn sé hann að auðvelda höfundarréttarbrot og hvetja til þeirra," segir Snæbjörn.

Snæbjörn segir samtökin þrjú hafa lagt inn beiðni um opinbera rannsókn hjá lögreglu í febrúar. „Hún hefur hins vegar ekkert aðhafst og vefurinn hefur bara stækkað síðan þá. Þá var ekkert annað að gera en að höfða einkamál til þess að hreyfa við málinu," segir Snæbjörn. Hann segir samtökin heldur hafa viljað opinbera rannsókn þar sem kostnaður vegna einkamála sé mjög mikill.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.