Erlent

Dómarar vísa endurkjörsmáli Musharrafs frá

Pakistanskir blaðamenn mótmæla ákvörðun stjórnvalda um að loka tveimur einkareknum sjónvarpsstöðvum.
Pakistanskir blaðamenn mótmæla ákvörðun stjórnvalda um að loka tveimur einkareknum sjónvarpsstöðvum. MYND/AFP

Hæstiréttur Pakistan hefur vísað frá fimm af sex efaatriðum um lögmæti endurkjörs Pervez Musharrafs forseta í síðasta mánuði. Rétturinn er nú settur dómurum sem eru vilhallir undir forsetann eftir að hann setti á neyðarlög í landinu.

Musharraf hefur sagt að hann muni hætta sem herforingi og verða borgaralegur forseti eftir að lögmæti kosninganna verði viðurkennt.

Hann hefur verið harðlega gagnrýndur af stjórnarandstöðu og Vesturlöndum fyrir að taka sér einræðisvald og setja neyðarlög.

Tíu dómarar tóku afstöðu til fimm helstu ásakananna gegn rétti Musharrafs til að keppa um forsetastólinn á meðan hann gegnir enn stöðu herforingja. Sjötti og síðasti liður málsins verður til umfjöllunar fyrir réttinum á fimmtudag.

Helsta ástæða þess að Musharraf greip til þess að setja á herlög í landinu er sú að hann óttaðist að Hæstiréttur myndi ógilda endurkjör hans.

Hlutabréfamarkaður í Karachi féll um meira en 350 stig eftir ákvörðun Hæstaréttar í dag og er enn fimm prósent fyrir neðan það sem var áður en neyðarlögin voru sett á.

Dómarar vöruðu lögmenn við á meðan málið var tekið fyrir í dag. Þeir sögðu þá geta átt á hættu að verða ákærðir um að vanvirða réttinn og jafnvel sviptingu réttinda ef þeir héldu áfram að ögra lögmæti endurkjörs Musharrafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×