Erlent

250 látnir í kjölfar fellibyls

Að minnsta kosti 250 létust þegar fellibylur skall á suðurhluta Bangladesh í gær. Stjórnvöld í landinu hafa varað við því að dánartalan muni hækka á næstu dögum þar sem stór svæði hafi einangrast vegna óveðursins.

Hundruð þúsunda manna voru flutt frá heimilum sínum og í sérstök neyðarskýli áður en stormurinn gekk á land en sumir urðu eftir. Í Bangladesh er mikill fjöldi neyðarskýla sem reyst voru á áttunda áratug síðustu aldar eftir að fellibylur varð hálfri milljón manns að bana árið 1970.

Stormurinn skildi eftir sig slóð eyðileggingar og er talið að vindhraðinn hafi náð 250 kílómetra hraða á klukkustund. Þá er tuga fiskimanna saknað sem létu stormviðvaranir sem vind um eyru þjóta og snéru ekki í land í gær.

Talsmenn Rauða hálfmánans í landinu segja að í það minnsta þrjú þorp á ströndinni séu einfaldlega horfin eftir að vindurinn gekk yfir en honum fylgdi fimm metra há flóðbylgja. Í höfuðborg landsins Dhaka sögðu sjónarvottar að óveðrið hefði leikið byggingar grátt auk þess sem rafmagns- og vatnsleiðslur hafi farið í sundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×