Erlent

Þrjú fórnarlömb barnaníðings gáfu sig fram

Alþjóðalögreglunni Interpol tókst að afrugla andlit níðingsins á ljósmyndum sem hann birti á netinu.
Alþjóðalögreglunni Interpol tókst að afrugla andlit níðingsins á ljósmyndum sem hann birti á netinu. MYND/Interpol

Þrír taílenskir drengir sem svívirtir voru af barnaníðingi sem nú er leitað í Taílandi gáfu sig fram við lögreglu í gær og skýrðu frá misnotkuninni. Drengirnir voru 9, 13 og 14 ára þegar atburðirnir áttu sér stað. Þeir segja að Christopher Paul Neil hafi greitt þeim fyrir munnmök árið 2003.

Drengirnir þekktu Neil af myndum sem birtar voru í fjölmiðlum. Hann hafði sýnt þeim klámmyndir á tölvu sinni í íbúð í Bangkok og greitt þeim fjárhæð sem samsvarar eitt til tvö þúsundum íslenskra króna fyrir mökin.

Wimol Powintara yfirmaður taílensku lögreglunnar sagði að í einu tilfellinu hefði drengur fengið tæpar 400 íslenskar krónur. Barnaníðingurinn hafi komið að tali við hann þar sem hann var að leika sér og spurt hvort hann vildi horfa á sjónvarp. Þegar drengurinn kom inn í íbúð mannsins, hafi hann læst hurðinni og tekið myndir sem síðan voru birtar á internetinu.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Neil. Powintara biðlaði til almennings í Taílandi um að dreyfa myndum af barnaníðingnum sem víðast. Hann sagði málið afar slæmt fyrir ímynd Taílands.

Christopher Paul Neil er Kanadamaður en kenndi ensku í Suður-Kóreu. Hann fór skyndilega til Taílands eftir að Interpol tókst að afrugla mynd af honum. Myndir náðust af honum í öryggismyndavél við komuna á alþjóðaflugvöllinn í Bangkok. Þá hafði hann rakað af sér hárið og var með gleraugu.

Lögreglan í Taílandi telur að hann haldi sig á ferðamannastöðum.

Yfirvöld í Kanada hafa sagt að þau muni krefjast þess að Neil verið framseldur. En í Kanada eru lög í gildi sem heimila lögsókn fyrir glæpi sem framdir eru í öðrum löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×