Erlent

Musharraf hlaut yfirburðakosningu

Pervez Musharraf forseti Pakistan vann yfirburðasigur í forsetakosningum sem fram fóru í dag. Búist hafði verið við því að Musharraf yrði fyrir valinu en hæstiréttur landsins segir mögulegt að framboð hans sé ekki löglegt.

Það voru þingmenn fjögurra héraðsþinga og báðar deildir þjóðþingsins í Pakistan sem kusu forsetann í leynilegri kosningu. Hæstiréttur landsins segir ekki ljóst hvort Musharraf hafi lagalegan rétt til að bjóða sig fram á sama tíma og hann er herforingi. Úrslit kosninganna verði ekki ljós fyrr en rétturinn úrskurði um málið, en það verður tekið fyrir 17. október. Musharraf þarf því að bíða í ellefu daga áður en hann veit fyrir víst hvort hann verður forseti næsta kjörtímabil.

Forsetinn er kosinn til fimm ára í senn, en núverandi kjörtímabili lýkur 15. nóvember. Helsti keppinautur Musharrafs um embættið var dómari sem sestur er í helgan stein.

Stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún mundi ekki kjósa í mótmælaskyni við því að forsetinn bjóði sig fram á meðan hann gegni herforingjatign. Sýnt var beint frá kosningunum í pakistanska ríkissjónvarpinu þegar þær hófust klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma.

Fjórir hafa slasast í mótmælum gegn Musharraf í Pakistan í dag en lögregla hefur beitt táragasi og handtekið fjölda manns sem lokuðu vegum með brennandi hjólbörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×