Erlent

Olmert og Abbas funda í Jerúsalem

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, funda í Jerúsalem í dag. Leiðtogarnir munu meðal annars ræða fyrirhugaða ráðstefnu ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs um málefni Palestínu sem halda á í næsta mánuði.

Á fundinum verður meðal annars reynt að móta rammasamkomulag um þau áhersluatriði sem lögð verða fyrir komandi ráðstefnu. Mahmoud Abbas hefur áður lýst því yfir að hann vilji að löndin setji sér tímaáætlun varðandi viðræður ríkjanna um málefni Palestínu. Hefur hann að auki lagt mikla áherslu á að rammasamkomulagið verði klárað fyrir ráðstefnuna í næsta mánuði.

Ehud Olmert er undir miklum þrýstingi frá harðlínumönnum innan ísraelsku stjórnarinnar að gefa ekki of mikið eftir í viðræðunum. Telja sérfræðingar því einboðið að það muni reynast leiðtogunum erfitt að klára samkomulagið fyrir ráðstefnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×