Erlent

"Ekki feig í dag"

Þórir Guðmundsson skrifar

Eldri hjón í Ástralíu þykjast heppin að hafa komist lifandi af úr ótrúlegu slysi á umferðarbrú í Queensland. Bíllinn sem þau Brian og Roslyn Fields voru í hangir niður af umferðarbrúnni en hjólhýsið þeirra heldur honum uppi.

Brian Fields segist hafa misst vald á bílnum þegar hann ók yfir misjöfnu á brúnni. "Bíllinn fór í grindverkið og skoppaði út af brúnni," segir hann.

Hjónin hafa haft mikla unun af því að ferðast með hjólhýsi um Ástralíu síðustu 38 árin. Girðingarbútur virðist hafa bjargað lífi þeirra í þetta sinn.

Roslyn Fields sagði við fréttamenn. "Ég þakka mínum sæla að ég var ekki feig í dag."

Brian komst fljótt út úr bílnum en Roslyn hékk í honum þangað til björgunarmenn skáru þakið af honum og komu hinni út. Þau hjónin segjast ætla að halda áfram að ferðast um Ástralíu á hjólhýsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×