Erlent

Óttast um afdrif fjölda friðargæsluliða

Óttast er um afdrif um sextíu friðargæsluliða í Darfúr í Súdan eftir árás skæruliða á stöðvar þeirra um helgina. Haskanita herstöð Afríkubandalagsins í Darfúr var rústir einar eftir átökin.

Þúsund manna lið skæruliða Frelsishers Súdans réðst á 130 friðargæsluliða, sem á endanum hörfuðu ofan í skurð þangað til stjórnarherinn kom þeim til hjálpar. Að minnsta kosti tíu féllu, aðrir tíu særðust og fjörtíu er saknað.

Þekktir friðarsamningamenn eru nú í Súdan til að ræða við deiluaðila. Í liði þeirra eru Jimmy Carter fyrrum Bandaríkjaforseti, Desmond Tutu biskup og breski kaupsýslumaðurinn Richard Branson.

Síðar í þessum mánuði ætla deiluaðilar að setjast að samningaborðinu og átök í Darfúr síðasta hálfan mánuð virðast hafa þann tilgang að treysta stöðu stríðandi fylkinga fyrir þann fund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×