Erlent

Drápsmarglytta að drepa Eystrasaltsþorskinn

Vart hefur orðið við marglyttutegundina Mnemiopsis leidyi, sem nefnd hefur verið ameríska drápsmarglyttan, á hafsvæði austan Borgundarhólms. Þetta þykja alvarleg tíðindi því marglyttan lifir á fiskhrognum og -lirfum og nú óttast menn að hún geti gert út af við þorskstofninn í Eystrasalti. Vefsíðan Interseafood.com greinir frá þessu.

Það á ekki af þorskstofninum í Eystrasalti að ganga. Ofveiði hefur verið úr stofninum og lífsskilyrði þorsksins hafa versnað hin síðari ár, m.a. vegna þess hve dregið hefur úr innflæði á súrefnisríkjum sjó í Eystrasaltið.

Hitastig sjávar hefur sömuleiðis farið hækkandi og það virðist hafa dregið drápsmarglytturnar inn í Eystrasaltið. Áður hafði þeirra orðið vart í Stórabelti og Litlabelti en nú eru marglytturnar komnar á hrygningarstöðvar þorsksins austan við Borgundarhólm.

Þetta kemur fram á vefsíðunni Bornholm.nu og þar er rifjað upp að talið er að drápsmarglytturnar séu ábyrgar fyrir hruni fiskstofna í Svartahafi á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×