Erlent

Vinir krónprinsins fyrir rétt í e-pillusmyglmáli

Þrír af nánum vinum Friðriks krónprins munu koma fyrir rétt í Danmörku í næsta mánuði vegna mjög umfangsmikils smygls á e-pillum til Bandaríkjanna. Þremenningarnir tilheyra "þotuliðinu" í Árósum og voru allir drykkjufélagar Friðriks Þegar hann bjó í borginni á síðasta áratug. Þeir eru sakaðir um smygl á 200.000 e-pillum frá Hollandi, gegnum Árósa, og til Bandaríkjanna.

Ekstra Bladet fjallar um málið í dag en þremenningarnir hafa setið í gæsluvarðhald frá því í maí 2006 eða í um hálft annað ár. E-pillusmyglið mun hafa átt sér stað árin 1999 til 2000 og það var eftir ábendingu frá FBI að danska lögreglan handtók þá.

Einn af þremenningunum var búsettur í Atlanta í Bandaríkjunum þegar FBI hóf aðgerðina "Operation X-Men" gegn umfangsmiklum smyglhring þar í landi. Höfuðpaurinn í því máli gekk undir nafninu "Captain America" og var hollenskur. Í aðgerðinni var lagt hald á 1,5 milljón e-pillna. "Captain America" ákvað að ganga til samstarfs við FBI og þaðan komu svo upplýsingarnar um þremenningana til dönsku lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×