Erlent

Gyðingar æfir vegna Nazi rúmteppalínunnar

Hakakrossinn var notaður á rúmábreiður.
Hakakrossinn var notaður á rúmábreiður. MYND/AFP
Leiðtogar gyðingasamfélagsins á Indlandi hafa látið í ljós reiði vegna nýrrar rúmteppaalínu sem kölluð er Nazi Collection. Húsgagnafyrirtækið er staðsett í Mumbai og notar hakakrossa í kynningarskyni. Framleiðendurnir segja nafnið standa fyrir New Arrival Zone for India og sé ekki ætlað að láta í ljós gyðingahatur. Gyðingar eru æfir vegna þessa og segjast munu kæra fyrirtækið. “Þetta er gríðarleg móðgun við gyðinga og allt eðlilega hugsandi fólk og verður að draga til baka,” sagði Jonathan Solomon stjórnarmaður Indverska Gyðingabandalagsins. “Við teljum að orðið Nazi hafi verið notað af ásettu ráði. Svona gerist ekki bara.” Solomon sagðist hafa haft samband við önnur gyðingasamtök í borginni og þau myndu fara á fund stjórnvalda og framleiðendanna saman. Rúmteppin eru ekki komin í sölu, en kynningarbæklingum hefur verið dreyft í verslunarmiðstöð í norðurhluta Mumbai samkvæmt upplýsingum Times of India dagblaðsins. Húsgagnasalinn Kapil Kumar Todi sagðist hafa valið nafnið vegna þess að það hafi komið upp í huga hans, samkvæmt upplýsingum blaðsins. Það skipti hann ekki máli hverjum liði illa út af því. Um 5.500 gyðingar búa á Indlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×