Erlent

Þrýst á Brown um kosningar

Brown nýtur vinsælda meðal landa sinna.
Brown nýtur vinsælda meðal landa sinna. MYND/AFP

Eftir innan við 100 daga í embætti gæti Gordon Brown forsætisráðherra Breta þurft að taka þá afdrifaríku ákvörðun hvort blása eigi til þingkosninga. Íhaldsmenn hvöttu forsætisráðherrann mjög til þess á flokksþingi sínu í Blackpool í dag. Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Brown mikilla vinsælda og hefur töluvert forskot á David Cameron keppinaut sinn úr Íhaldsflokknum.

Brown þarf ekki að blása til kosninga fyrr en árið 2010 en margir telja að hann þurfi sigur í kosningum til að fá fullt umboð þjóðarinnar. Brown tók við embætti af Tony Blair á miðju kjörtímabili.

Ákvörðunin gæti orðið sú áfdrifaríkasta á ferli hans sem forsætisráðherra. Ef hann tapar í kosningunum yrði hann sá forsætisráðherra sem styst hefði setið í embættinu. Sigri hann hins vegar fær hann umboð til fimm ára í viðbót og sigur yfir íhaldsmönnum í fjörðu kosningunum í röð.

Skoðanakönnun Daily Telegraph leiddi í ljós að Brown hefði 11 prósenta forskot á Cameron. Verkamannaflokkurinn hefði 43 prósent en Íhaldsflokkurinn 32 prósent. Frjálslyndir Demókratar fengu 15 prósenta fylgi í könnuninni.

Könnun The Times leiddi í ljós svipaðar niðurstöður. Verkamannaflokkurinn fékk 41 prósent, Íhaldsflokkurinn 31 prósent og Frjálslyndir Demókratar 17 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×