Erlent

Ríki heims staðfesti mannréttindi fatlaðra

Hart er þrýst á ríki heims að skrifa undir og staðfesta alþjóðasamning um mannréttindi fatlaðra. Samkvæmt samningnum geta einstaklingar og hópar kært ríki til eftirlitsnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna telji þeir á sér brotið.

Um allan heim eru fatlaðir nánast ósýnilegir, þó að þeir séu tíundi partur mannkyns. Ótrúlega víða er fötlun ávísun á ævilangt fangelsi, annað hvort inni á heimili foreldra sem skammast sín fyrir að eiga fatlað barn eða á þar til gerðum stofnunum.

Á ráðstefnu hjá Háskólanum í Reykjavík voru 160 manns að ræða nýsamþykktan alþjóðasamning um mannréttindi fatlaðra.

Samningurinn verður drifkraftur þegar kemur að endurbótum um allan heim í réttindamálum fatlaðra. Þetta er ef til vill mikilvægasti liðurinn í því að taka fatlaða út af stofnunum og tryggja þeim sjálfstætt líf.

Ísland hefur skrifað undir samninginn en á enn eftir að staðfesta hann. Þegar tuttugu ríki hafa staðfest samninginn tekur hann gildi. Og hann skiptir líka máli á hinum ríku Norðurlöndum.

Holger Kallehauge, formaður landssamtaka lömunarveikisjúklinga í Danmörku segir að á nær öllum sviðum á Norðurlöndunum, einnig í Danmörku, vanti mikið upp á aðgengi. Á sumum sviðum getur hins vegar fatlað fólk lifað til jafns við aðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×