Enski boltinn

Keane: Tek hárblásturinn í klefanum

NordicPhotos/GettyImages

Roy Keane, stjóri Sunderland, segist hafa tekið meðvitaða ákvörðun um það fyrir leiktíðina að geyma alla reiðilestra yfir liðsmönnum sínum þangað til hann er kominn inn í lokuð búningsherbergi.

"Það er erfitt að standa á hliðarlínunni og þegja, trúið mér," sagði Keane í samtali við The Sun. "Ég tók hinsvega þá ákvörðun fyrir tímabilið að vera ekkert að æsa mig á hliðarlínunni og geyma alla reiðilestra þangað til búið er að loka dyrunum á búningsklefunum.

Ef ég ætlaði alltaf að vera að æsa mig við allt og alla á hliðarlínunni myndi það eflaust koma mér í gröfina fljótlega og svo hlusta leikmenn ekkert á öskrin í þjálfaranum þegar þeir eru á fullu að spila hvort sem er. Ég held meira að segja að sumir stjórarnir séu bara að öskra til að draga að sér athygli sjónvarpsmyndavélanna eða eitthvað álíka," sagði Roy Keane.

Keane mætir gömlum félaga í Mark Hughes þegar Blackburn sækir Sunderland heim í úrvalsdeildinni í dag. Þeir léku saman í tvö ár undir Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og það var þar sem hugtakið "hárblástur" var fundið upp - þegar Sir Alex lék hárin rísa á höfði leikmanna þegar hann var að skamma þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×