Erlent

Branson styður við vörn McCann-hjónanna

MYND/AP
Milljarðarmæringurinn Sir Richard Branson hyggst leggja fram 100 þúsund pund, jafnvirði um 13 milljóna króna, í sjóð til þess að hjálpa foreldrum bresku stúlkunnar Madeleine McCann að hreinsa nafn sitt. Breska blaðið Sunday Times greinir frá þessu í dag.

Portúgalska lögreglan grunar Gerry og Kate McCann um að hafa verið viðriðinn hvarf og dauða Madeleine litlu í maí síðastliðnum en þau hafna því alfarið. Branson hefur nú ákveðið að leggja þeim lið og er ætlunin að leita til fleiri auðmanna sem telja McCann-hjónin saklaus. Vonir standa til að hægt verði að safna 130 milljónum króna til baráttunnar svo ættingjar McCann-hjónanna þurfi ekki að selja hús sín til þess að fjármagna baráttuna.

Helmingur telur hugsanlegt að McCann-hjónin séu sek

Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir Sunday Times telur einungis fimmtungur aðspurðra að McCann-hjónin séu saklaus í málinu en nærri helmingur telur að þau gætu hafa átt þátt í dauða dóttur sinnar, sem hvarf af hóteli fjölskyldunnar í Portúgal þann 3. maí.

Portúgalska lögreglan bíður þess nú að fá leyfi frá dómstólum til þess að hefja yfirgripsmikla leit að líki stúlkunnar og segja portúgalskir miðlar að breskir lögreglumenn muni yfirheyra Kate McCann á ný að beiðni portúgalskra starfsbræðra sinna. Þá grunar að Kate hafi fyrir slysni orðið dóttur sinni að bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×