Fótbolti

Brassar vinsælir í Bandaríkjunum

AFP

David Beckham á enn langt í land með að trekkja að jafn marga áhorfendur og brasilíska landsliðið í Bandaríkjunum ef marka má fréttir þar í landi í dag. Brasilíumenn mæta Mexíkóum í vináttulandsleik í Boston annað kvöld og þegar hafa verið seldir um 57,000 miðar á leikinn.

Nokkur fjöldi aðdáenda tók á móti Brasilíumönnum þegar þeir mættu á Logan-flugvöllinn í Boston í dag og þar voru flestir að falast eftir því að ná myndum af þeim Kaka og Ronaldinho. Svo gæti farið að aðsóknarmetið á Gillette-leikvellinum annað kvöld, en árið 2002 sáu rúmlega 61,000 manns bikarleik milli LA Galaxy og New England Revolution á þessum leikvelli - en hann tekur rúmlega 68,000 manns í sæti.

Við þetta má bæta að aðeins 35,000 manns sáu David Beckham og félaga í LA Galaxy leika við Revelution þann 12. ágúst sl. - en þá var Beckham reyndar meiddur og gat ekki spilað með sínum mönnum.

Brasilíumenn eiga harma að hefna í leiknum gegn Mexíkóum annað kvöld, því liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð á stórmótum fyrir Mexíkóum. Síðast mættust þau í riðlakeppni Ameríkukeppninnar í júní þar sem Mexíkó sigraði 2-0. Það kom þó ekki að sök því Brassar sigruðu í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×