Innlent

Reynir að skýla sér á bak við nefnd vegna stórra orða

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, segir Össur Skarphéðinsson, núverandi iðnaðarráðherra, reyna að skýla sér á bak við nefnd um vatnalög, sem hann segir Valgerði ekki hafa skipað, til þess að komast út úr vandræðum vegna stórra orða um vatnalögin.

Össur benti á á bloggi sínu í gær að Valgerður hefði sem iðnaðarráðherra aldrei skipað nefnd um vatnalögin í samræmi við samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi árið 2006. Miklar deilur voru um vatnalögin, meðal annars hvort verið væri að gera vatn að séreign, og átti nefndin að hafa það hlutverk að fjalla um lögin frá ýmsum sjónarhornum.

Valgerður sagði í samtali við Vísi í dag að henni fyndist útspil Össusar broslegt. Össur væri kominn í vandræði vegna stórra orða í vatnalagamálinu, en hann hefði meðal annars lýst því yfir að hann ætlaði að endurskoða vatnalögin sérstaklega með tilliti til eignarréttar. „Honum er það hins vegar ljóst að sjálfstæðismenn eru ekki tilbúnir að fara í grundvallarendurskoðun á lögunum og því er hann að reyna að komast út úr málinu með því að vísa í nefndina," segir Valgerður.

Valgerður segir enn fremur að með vatnalögunum hafi ekki orðið grundvallarbreyting heldur formbreyting. Eignarrétturinn á vatni á tilteknum svæðum hafi verið hjá landeigendum allt frá árinu 1923. Þá bendir hún á að verkefni nefndarinnar hafi ekki verið að fara heildstætt yfir vatnalögin heldur skoða þau með tilliti til umfjöllunar um vatn í öðrum lögum og vatnatilskipun Evrópusambandsins svo dæmi séu tekin.

Aðspurð segir Valgerður að hún hafi óskað eftir tilnefningu í nefndina á sínum tíma en ekki hafi borist tilnefning frá Vinstri grænum þar sem þeim hafi ekki þótt tímabært að skipa nefndina. Skömmu síðar hafi hún farið úr iðnaðarráðuneytinu yfir í utanríkisráðuneytið og þar með hafi hennar afskiptum af málinu lokið. Aðspurð fagnar hún því ef Össur hyggist skipa nefndina en ítrekar að verkefni nefndarinnar hafi verið takmarkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×