Innlent

Segja sátt um hlutverk Vinnumálastofnunar brostna

Stjórn Starfgreinafélagsins AFLS boðar harðari vinnubrögð á vinnumarkaði og mögulegar vinnustöðvanir vegna ummæla forstjóra Vinnumálastofnunar um að félagið væri ekki sinna sínu starfi. Stjórnin segir að sátt um hlutverk Vinnumálastofnunar á vinnumarkaði sé brostin.

Vinnumálastofnun hefur sætt harðri gagnrýni frá stjórn AFLS vegna samninga sem stofnunin gerði við verktakafyrirtæki á Kjárahnjúkasvæðinu í vikunni. Í fjölmiðlum í gær svaraði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, gagnrýninni og sagði varla mark á henni takandi. Benti hann á að það væri ekki hlutverk stofnunarinnar að gæta að skráningu erlendra verkamanna.

Í samtali við fréttastofu í dag sagðist Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLS, undrast orð Gissurar. Sagði hún ljóst að ef Vinnumálastofnun treysti sér ekki til að gegna eftirlitshlutverki sínu þyrftu verkalýðsfélögin að taka það í eigin hendur. Það myndi hins vegar þýða aukna hörku á vinnumarkaði og mögulegar vinnustöðvanir þar sem ástæða þykir til.

Stjórn AFLS hefur boðað til aukafundar á mánudaginn og mun þar meðal annars skipuleggja frekari aðgerðir félagsins þar með talið hvort ástæða sé fyrir boðun vinnustöðvana á virkjanasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×