Erlent

Foreldrar Madeleine grunaðir

Algjör viðsnúningur hefur orðið á framvindu leitarinnar að Madeleine litlu sem hvarf af hótelherbergi í Portúgal í maí síðastliðnum. Foreldrar stúlkunnar sem hafa með hjálp fjölmiðla ákaft leitað hennar eru nú grunaðir um að hafa myrt stúlkuna.

Hvarf stúlkunnar hefur fangað athygli alheimsins en hún hvarf á dularfullan hátt að kvöldi 3. maí á meðan foreldrar hennar sátu að snæðingi nokkra tugi metra þar frá hótelinu þar sem hún lá sofandi ásamt tveimur yngri systkinum sínum. Kate og Gerry McCann hafa ákaft leitað dóttur sinnar síðan, meðal annars með dyggri aðstoð fjölmiðla. Lögreglan í Portúgal hefur farið með rannsókn málsins og hefur mörgum þótt hún ekki standa sig í stykkinu. Ný gögn í málinu gerðu það hins vegar að verkum að algjör viðsnúningur varð í rannsókn lögreglu en þá tilkynnti hún að hjónin hefðu réttarstöðu grunaðra.

Gögnin sem breyttu stöðu hjónanna í stöðu grunaðra eru blóðblettir sem fundust í bifreið sem McCann-hjónin tóku á leigu rúmum þremur vikum eftir hvarf dótturinnar. Kate McCann, móðir Madeleine var yfirheyrð í gær í rúmar 11 klukkustundir og strax þar á eftir var faðir hennar, Gerry McCann yfirheyrður í um sjö klukkustundir. Breskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að lögreglan teldi að Kate hefði fyrir slysni verið völd að dauða dóttur sinnar.

Vinir og ættingjar hjónanna segja fáránlegt að ætla að foreldrarnir séu sekir um að hafa tekið stúlkuna af lífi.

Hjónin hafa ekki veitt fjölmiðlum viðtal í dag en á heimasíðu þeirra segir Gerry það algjörlega út í hött að halda því fram að Kate eigi einhvern þátt í hvarfi Madeleine. Allir sem til þekki viti að hún sé saklaus og að hjónin muni halda áfram að leita að dóttur sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×