Erlent

Pavarotti borinn til grafar á Ítalíu

Pavarotti lést síðastliðinn fimmtudag af völdum krabbameins.
Pavarotti lést síðastliðinn fimmtudag af völdum krabbameins. MYND/AFP

Óperusöngvarinn Luciano Pavarotti verður borinn til grafar á Ítalíu í dag. Meðal þeirra sem verða viðstaddir útförina eru söngvararnir Placido Domingo, Jose Carreras og Bono, söngvari hljómsveitarinnar U2. Þá mun Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, einnig verða viðstaddur athöfnina.

Útförin hefst klukkan þrjú að staðartíma í dag í Modena á Ítalíu, heimabæ Luciano Pavarotti. Gert er ráð fyrir því að þúsundir manna muni safnast saman til að minnast söngvarans. Hinn blindi tenór, Andrea Bocelli, mun syngja í athöfninni en þá hafa einnig fjölmargir leikmenn ítalska knattspyrnuliðsins Juventus boðað komu sína.

Hin fræga listflugssveit ítalska flughersins, Frecce Tricolori, mun fljúga yfir bæinn og mála himininn með litum ítalska fánans um það leyti sem kista söngavarans verður borin út úr dómkirkjunni í Modena.

Pavarotti lést á fimmtudaginn, 71 árs að aldri, af völdum krabbameins. Hann greindist með krabbamein í brisi í júlímánuði í fyrra og gekkst undir aðgerði í New York til að fjarlægja meinið. Hann kom ekki fram opinberlega eftir það. Skömmu síðar flutti hann til heimabæjarins, að sögn til að deyja í faðmi fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×