Innlent

Fyrstu etanólbílarnir komnir til Íslands

Þórir Guðmundsson skrifar

Nú eru komnir til landsins þrír bílar, einn Saab og tveir Volvoar, sem eru knúðir af etanólblöndu. Etanól er umhverfisvænt eldsneyti, tiltölulega ódýrt og auðvelt í dreifingu.

Þrátt fyrir alla þá nýju orkugjafa sem er verið að skoða þá eru nær allir bílar á götum Íslands knúðir áfram af bensíni eða dísilolíu.

Í Svíþjóð eru um 70 þúsund etanólbílar á götunum, sem ganga fyrir svokallaðri E85 blöndu, sem er 85 prósent etanól og 15 prósent bensín.

Etanólið hefur það umfram marga aðra nýja orkugjafa að það er álíka dýrt eða ódýrara en bensín, það er auðvelt að breyta yfir í etanól af því að það er í fljótandi formi - sem þýðir til dæmis að það þarf lítið sem ekkert að breyta núverandi bensínstöðvum - og svipaða sögu er að segja af bílunum, að það þarf ekki nema tiltölulega lítilsháttar breytingar á þeim til að þeir geti gengið á etanóli eða bensíni.

Loftur Ágústsson markaðsstjóri Ingvars Helgasonar, sem flytur inn Saab, segir að etanólbílar gefi frá sér 80 prósent minna af koltvíoxíði en bensínbílar og að þeir muni kosta álíka mikið komnir á götuna á Íslandi. Í Svíþjóð er etanól verulega ódýrara en bensín, um 75 krónur íslenskar fyrir etanól á móti 113 krónum fyrir bensín.

Hins vegar kemstu 25 - 30 prósent skemur með etanóli heldur en bensíni, og þar við bætist að verðbreytingar á markaðnum eru miklar. Niðurstaðan, hvað kostnað varðar, er líklega sú að menn munu ekki kaupa etanól verðsins vegna - en þurfa heldur ekki að halda sig við bensín af þeirri ástæðu.

Egill Jóhannsson hjá Brimborg, sem flytur inn Volvo, vill að etanólbílar komist í sama tollaflokk og vetnis-, rafmagns- og metanbílar - sem engin vörugjöld eru lögð á.

Þegar má sjá merki þess að vinsældir etanólbíla séu að aukast. Til að framleiða etanól þarf sykur - og sykurverð hefur verið að hækka undanfarið, einmitt vegna væntinga um að etanól verði í auknum mæli notað í staðinn fyrir bensín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×