Innlent

Orka Þjórsár boðin öðrum til kaups

Forgangur Alcan í Straumsvík að orku Þjórsárvirkjana er úr sögunni og hefur Landsvirkjun þegar hafið viðræður við önnur fyrirtæki. Ekki er þó búið að loka á Alcan.

Landsvirkjun og Alcan undirrituðu í ársbyrjun 2006 viljayfirlýsingu um raforkukaup vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Með henni skuldbatt Landsvirkjun sig til að ræða ekki við aðra orkukaupendur um sölu á rafmagni frá virkjanakostum í neðri Þjórsá meðan viðræður fyrirtækjanna stæðu yfir. Álverskosningin í Hafnarfirði í marsmánuði setti hins vegar strik í stækkunaráformin en meirihluti kjósenda hafnaði deiliskipulagi sem gerði ráð fyrir stækkun. Alcan hóf þá að kanna aðra kosti til álversuppbyggingar, bæði í Þorlákshöfn og á Keilisnesi, enda hafði Landvirkjun framlengt forgang Alcan að orku Þjórsárvirkjana til 1. júlí síðastliðinn. Þegar sá dagur rann upp lýsti Landsvirkjun því enn yfir að viðræður yrði ekki hafnar við aðra aðila en áfram rætt við Alcan.

En nú hefur orðið stefnubreyting og hefur Landsvirkjun ákveðið að hleypa fleiri aðilum að samningaborðinu. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, staðfesti í samtali við Stöð 2 í dag að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að rætt yrði við alla þá aðila sem áhuga hefðu á orkukaupum. Kannað yrði meðal annars hvaða verð þessir aðilar væru tilbúnir að greiða fyrir orkuna og hvaða ábyrgðir þeir gætu boðið. Friðrik tók fram að þetta þýddi ekki að búið væri að loka á Alcan. Ákvörðun Landsvirkjun gefur hins vegar öðrum áhugasömum stórkaupendum að raforku færi á að yfirbjóða Alcan, bæði öðrum álfyrirtækjum eins og Norsk Hydro og Norðuráli, sem og aðilum úr öðrum geirum, eins og netþjónabúum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×