Erlent

Sprengja átti Nørreport lestarstöðina á næstu dögum

Sighvatur Jónsson skrifar

Líklegt er að sprengiefnið sem danska leyniþjónustan fann í hryðjuverkaaðgerðunum í Kaupmannahöfn aðfaranótt þriðjudags hafi átt að nota á næstu dögum til að sprengja upp Nørreport lestarstöðina.

Margir Íslendingar þekkja Nørreport lestarstöðina. Á hverjum sólarhring ferðast um stöðina jafnmargir og búa á Íslandi, 300.000 manns.

Ekstrablaðið hefur eftir heimildarmönnum sem þekktu til aðgerða leyniþjónustunnar, að lestarstöðin hafi verið skotmark hinna meintu hryðjuverkamanna.

Politiken hefur eftir efnafræðingi að TATP, sprengiefnið, sem fannst í íbúð annars þeirra tveggja sem nú sitja í varðhaldi, hafi stuttan endingartíma því það gufi mjög fljótt upp. Við ákveðnar aðstæður getir sprengiefnið enst lengur, jafnvel nokkra mánuði. Hvort slíkar aðstæður voru fyrir hendi í íbúðinni þar sem sprengiefnið fannst hefur ekki komið fram. En danska leyniþjónustan lét til skarar skríða mjög snögglega, vegna þess sem hún kallaði „yfirvofandi hættu af varðveislu óstöðugs sprengiefnis í mannmörgu íbúðahverfi".

Faðir annars þeirra tveggja sem sitja í varðhaldi í Kaupmannahöfn segir að sonur sinn sé saklaus: „Sonur minn kom ekki nálægt neinu sem fjallað var um í sjónvarpinu."

Tveir 21 árs menn voru dæmdir í 27 daga gæsluvarðhald eftir handtökurnar aðfaranótt þriðjudagsins. Annar er leigubílstjóri og hinn lestarstarfsmaður. Danskir fjölmiðlar segja tengsl milli þeirra og manna sem hafa komið við sögu í tveimur öðrum hryðjuverkamálum í Danmörku. Réttarhöld eru nýhafin í öðru málinu, því sem tengist Vollsmose hverfinu í Óðinsvéum.

Verjendur sakborninga setja spurningamerki við þátt tálbeitu lögreglu. Bjørn Elmquist, verjandi, bendir þannig á að sakborningar hafi ekki niðurhalað hryðjuverkaefni fyrr en eftir að tálbeita lögreglunnar kom til sögunnar.

Einn sakborninga segist treysta á að danska réttarkerfið sýkni hann og aðra sakborninga í málinu: „Ég get ekki ímyndað mér hvernig það yrði ef ég yrði fundinn sekur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×