Erlent

Hryðjuverkaárás afstýrt í Danmörku?

MYND/jp.dk

Leyniþjónusta Danmerkur, PET, handtók í nótt fjölda fólks, grunað um að undirbúa hryðjuverkaárásir. Gæsluvarðhalds verður krafist yfir minnst tveimur þeirra sem handteknir voru, vegna gruns um að þeir hafi verið að skipuleggja sprengjuárásir. Í tilkynningu frá leyniþjónustunni segir að hún hafi fylgst með fólkinu í lengri tíma.

Annar mannanna er nítján ára gamall rafvirki af tyrkneskum uppruna. Tugur lögreglumanna ásamt meðlimum úr eiturefnasveit lögreglunnar réðst inn í íbúð fjölskyldu mannsins í Ishöj um hálf þrjú leitið í nótt að sögn TV2 sjónvarpsstöðvarinnar. Þar var hann ásamt þremur systkinum sínum á aldrinum 6, fimmtán og nítján ára. Þeim var vísað úr íbúðinni og bannað að tala við bróður sinn. Nágrannar fjölskyldunnar sögðu hana vinalega, og elstu drengina tvo vera hjálplega. Allir meðlimir hennar tala góða dönsku og virtust hafa aðlagast dönsku þjóðfélagi vel.

Þá rannsakaði lögregla íbúð við Glasvej í Norð-vestur hluta Kaupmannahafnar. Þar búa tveir menn á þrítugsaldri ásamt eldri hjónum. Að sögn Jótlandspóstsins var að minnsta kosti annar mannanna handtekinn fyrr um nóttina.

Lögregla staðfesti við danska fjölmiðla að málin tvö tengist sömu rannsókn. Hún vill ekkert tjá sig um málið frekar fyrir fréttamannafund, sem verður haldinn um málið á hádegi, eða klukkan 10 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×