Erlent

Fljúgandi diskur á markað fljótlega

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Fljúgandi diskar eru ekki lengur vísindaskáldskapur, en nú styttist í að fyrsti diskurinn fyrir almenning fari á markað.

Tækið, sem kallast M200g, verður sett í almenna sölu eftir nokkra mánuði. Fyrirtækið sem framleiðir diskinn, Moller International, vonast til að selja um 250 stykki á ári.

Þeir segja diskinn auðveldan í meðförum, rúmt sé um flugmann og pláss fyrir farþega.

Tækið tekur lóðrétt á loft og flýgur í um þriggja metra hæð. Hærra fer það ekki því þá þyrfti öku - eða flugmaðurinn flugpróf.

Átta vélar knúa tækið, og geta þær keyrt á bensíni, díselolíu eða jafnvel ethanóli.

Tækið mun kosta um nítíu þúsund dollara eða um 5,6 milljónir króna.

Eina stóra úrlausnarefnið sem framleiðendur eiga eftir er skráning tækisins, en erfitt reynist að finna út úr því hvort skrá á tækið sem flugvél eða ökutæki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×