Erlent

Pakistönsk yfirvöld mótmæla Múhameðsteikningum

Pakistönsk yfirvöld kölluðu ræðismann Svíþjóðar á sinn fund í gær til að mótmæla formlega óviðeigandi teikningum af Múhameð spámanni sem birtust í sænsku dagblaði fyrir tæpum tveimur vikum.

Ræðismaðurinn, Lennart Holst tjáði yfirvöldum í Pakistan að sænsk stjórnvöld geti ekki skipt sér af frelsi fjölmiðla í Svíþjóð.

Á mánudaginn kölluðu írönsk stjórnvöld ræðismann Svíþjóðar í Teheran á fund sinn vegna sama máls.

Myndirnar, sem eru eftir sænska listamanninn, Lars Vilks, birtust í héraðsfréttablaðinu Nerikes Allehanda. Þær sýna höfuð Múhameðs á hundslíkama. Í kjölfar birtinganna mótmæltu múslimar fyrir utan skirfstofur blaðsins. Það ver hinsvegar birtinguna og ber við málfrelsi.

Í það minnsta tvö listagallerí höfðu áður neitað að sýna myndirnar, af ótta við að þær ýfðu fjaðrir múslima.

Snemma árs 2006 geysaði stormur mótmæla  vegna mynda af spámanninum sem birtust í dönskum blöðum. Danskar vörur voru sniðgengnar og fjöldi múslimalanda dró sendiherra sína heim frá Danmörku. Þá kveiktu mótmælendur í sendráðum Skandinavíuríkjanna í Sýrlandi. 139 létust í óeirðum vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×