Erlent

Fangaverðir snúa aftur til vinnu

MYND/Getty

Verkfalli um 20 þúsund fangavarða í Bretlandi var aflýst í kvöld eftir að ríkistjórn landsins óskaði eftir viðræðum. Starfsmenn í 131 fangelsi á Englandi og í Wales gengu út klukkan sjö í morgun og boðuðu sólarhrings verkfall en þeir hafa lengi barist fyrir hærri launum og betri vinnuaðstöðu. Alvarlegt ástand skapaðist í fangelsum landsins þar sem ekki var hægt að hleypa föngum út úr klefum sínum.

Ríkisstjórn Bretlands fékk lögbann sett á aðgerðirnar fyrr í dag en fangaverðirnir virtu það að vettugi og mættu ekki til vinnu sinnar. Það var ekki fyrr en innanríkisráðherrann Jack Straw lofaði forsvarsmönnum fangavarða viðræðum að þeir sættust á að snúa aftur inn fyrir múra fangelsanna.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem fangaverðir fara í verkfall í Bretlandi en að sögn forsvarsmanna þeirra hafa vinnuaðstæður í fangelsunum sjaldan verið verri. Ofbeldi fer vaxandi innan veggja þeirra og talið er að átta fangaverðir á dag verði fyrir árásum við skyldustörf allan ársins hring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×