Erlent

Yfirmaður í Abu Ghraib sýknaður af ákæru

Steven Jordan
Steven Jordan MYND/AP

Herréttur í Maryland í Bandaríkjunum sýknaði í dag bandarískan herforingja sem ákærður var fyrir að bera ábyrgð á misþyrmingum á föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Maðurinn, Steven Jordan, var eini yfirmaðurinn sem kallaður var til ábyrgðar vegna hneykslisins.

Jordan er ekki talinn bera ábyrgð á ódæðisverkunum en hann var fundinn sekur um að óhlýðnast yfirmönnum sínum þegar honum var skipað að ræða ekki um rannsókn sem sett var í gang á sínum tíma. Jordan neitaði öllum sakargiftum og segir að hann hafi verið gerður að blóraböggli í málinu.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt sækjendur í málinu sem þau segja hafa staðið sig illa og að óásættanlegt sé að Jordan sé sá eini sem dreginn hafi verið til ábyrgðar.

Herréttur hefur áður sakfellt óbreytta hermenn vegna málsins og tveir yfirmenn í hernum, æðri Jordan, hafa verið ávíttir en hvorugur þeirra var ákærður fyrir glæpsamlegt atferli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×