Erlent

Hljóp tvö maraþon á dag

MYND/Getty

Átta ára kínversk stúlka kom í gær til Peking, eftir að hafa hlaupið þangað um 3550 kílómetra vegalengd á innan við tveimur mánuðum.

Zhang Huimin lagði af stað frá Hainan sýslu þriðja júlí síðastliðinn. Hún vaknaði klukkan hálf þrjú á hverjum morgni og hljóp meira en 84 kílómetra, eða um tvö maraþon, á hverjum degi.

Að sögn Xinhua fréttastöðvarinnar fylgdi faðir hennar henni á hjóli alla leið. Hann sagði ferðina farna til að vekja athygli á íþróttahæfileikum stúlkunnar fyrir Ólympíuleikana í Peking á næsta ári.

Barnaverndarsérfræðingar hafa gagnrýnt föðurinn og segja athæfið jaðra við misnotkun. Öll þessi hlaup geti haft áhrif á vöxt stúlkunnar og þroska.

Huimin er 1.22 á hæð og 21 kíló að þyngd. Hún er of ung til að keppa á  Ólympíuleikunum á næsta ári, en faðirinn segist trúa því að hún taki þátt árið 2016, þegar hún verður sautján ára.

Hann blæs á gagnrýnina og segir stúlkuna hafa gaman af hlaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×