Erlent

Formaður þýska Þjóðernisflokksins ákærður fyrir kynþáttahatur

Leiðtogar þýska Þjóðernisflokksins NPD.
Leiðtogar þýska Þjóðernisflokksins NPD. MYND/AFP

Lögregluyfirvöld í Þýskalandi hafa ákært Udo Voigt, formann þýska Þjóðernisflokksins NPD, fyrir ýta undir kynþáttahatur. Verði Voigt fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsisvist.

Í ræðu sem Udo Voigt hélt á fundi þýska Þjóðernisflokksins í borginni Jena í austurhluta Þýskalands um síðustu helgi lagði hann til að Rudolf Hess, fyrrverandi aðstoðarmaður Adolfs Hitlers, yrði sæmdur heiðursorðu. Fundurinn var haldinn til minningar um að 20 ár eru liðin frá því Rudolf Hess lést í Spandau-fangelsinu í Berlín.

Að mati lögreglunnar var Voigt með orðum sínum að ýta undir kynþáttahatur í Þýskalandi.

Þýski Þjóðernisflokkurinn á enga fulltrúa á þýska þinginu en fulltrúar frá flokknum sitja þó í fylkisstjórnum Saxlands og Mecklenburg-Vorpommern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×