Erlent

Þrír látnir í flóðunum í Bretlandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Hitarnir í Suðaustur Evrópu og flóðin í Bretlandi eru talin afleiðing þess að loftstraumar og lægðir ganga nú sunnar en verið hefur. Þetta hefur orsakað einmuna veðurblíðu hér á landi í sumar. Þrír eru látnir í flóðunum í Bretlandi í dag.

Hundruð íbúa flóðasvæðanna í Bretlandi snúa nú til síns heima, en flóðin eru í rénun. Eignatjón er gífurlegt, auk þess sem rafmagnsleysi og vatnsskortur hrjá enn sum flóðasvæðin. Íbúar hafa verið varaðir við vatnspumpum sem ganga fyrir eldsneyti, en tveir menn létust úr eitrun þegar þeir reyndu að dæla vatni úr íþróttahúsi með eldsneytisdælu sem spúði eiturgufum. Lík þriðja fórnarlambs flóðanna fannst í ánni Great Ouse á þriðjudag, en það var karlmaður á fimmtugsaldri.

Yfirvöld vara fólk við að komast í beina snertingu við flóðvatnið sem er blandað skólpi og eiturefnum, en segja þó ekki bráða hættu á sjúkdómum.

Vatnsfyrirtækið Severn Trent áætlaði að koma vatni á til um 10 þúsund heimila í Tewkesbury í dag. íbúar eru þó varaðir við að drekka kranavatnið enn sem komið er. Enn eru rúmlega 300 þúsund manns án neysluvatns á flóðasvæðunum.

Úrkoma í júní og júlí hefur ekki verið meiri frá upphafi mælinga í Bretlandi.

Orsakir hennar liggja í því að lægðir sem vanalega ganga yfir Ísland, hafa í sumar gengið suður fyrir landið. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir ekki vitað um orsakir þess að loftstrengurinn liggur svona sunnarlega í ár, en hann hafi orsakað einmuna blíðu hér í sumar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×