Erlent

Óttast um heilsufar fólks vegna flóðanna í Bretlandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Óttast er um heilsufar fólks í Bretlandi vegna skólps og eiturefna sem blandast hafa flóðavatninu þar. Eignatjón vegna flóðanna undanfarnar vikur er talið nema tæplega fjögur hundruð milljörðum króna. Þá hafa tugir farist vegna flóða í Kína.

Um þrjú hundruð og fimmtíu þúsund manns í Gloucester Tewkesbury eru án neysluvatns og treysta því á flöskuvatn eða vatn úr tankbílum sem sendir hafa verið til flóðasvæðanna. Gert er ráð fyrir að 140 þúsund heimili verði áfram án vatns næstu tvær vikur. Í dag tókst þó að koma rafmagni á tæplega fimmtíu þúsund heimili.

Gordon Brown forsætisráðherra tilkynnti að fimm milljörðum íslenskra króna yrði varið til fórnarlamba flóðanna. Hann flaug til Gloucester í dag og lagði áherslu á að neysluvatni yrði komið sem fyrst á til íbúa svæðanna.

Í Oxford hefur hundruð manna verið ráðlagt að fara af heimilum sínum sem standa lágt við ánna. Vatn hækkaði um rúman meter í borginni í dag, þó er ekki hætta á flóðum í miðborg borgarinnar, eða á háskólasvæðinu sjálfu. Gert er ráð fyrir að vatnavextir verði meiri í ánni á morgun og eru því tugir bæja í hættu.

Rigningarsumarið í ár er gjörólíkt sumrinu í fyrra, sem var eitt hið heitasta og þurrasta í sögu Bretlands.

Í Kína hafa úrhellisrigningar orðið í það minnsta 37 manns að bana í Sichuan héraði í síðustu viku. Eldingar og aurskriður hafa gert ástandið afar slæmt og enn er 14 saknað í héraðinu.

Björgunarsveitir hafa fullt í fangi með að koma fólki til hjálpar og aurskriður og eldingar hafa aukið á slæmt ástand . Giftusamlega tókst þó að bjarga tveimur drengjum sem festust í miðri á sem óx skyndilega. Um 100 slökkviliðs-og lögreglumenn tóku þátt í að bjarga drengjunum, en vegna þess hve áin var straumhöfð misheppnuðust fyrstu tvær tilrauninrnar. Lögreglumanni tókst loks að koma drengjunum í land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×