Erlent

Þjófóttur mávur

Nokkuð útsjónasamur mávur hefur undanfarið verið iðinn við að ræna pökkum af kartöfluflögum úr lítilli verslun í Skotlandi. Mávurinn virðist vita alveg upp á hár hvað hann vill og tekur alltaf sömu tegundina af flögum.

Verslunin sem mávurinn hefur undanfarið vanið komur sínar í er í Aberdeen í Skotlandi. Einn starfsmanna verslunarinnar segir starfsfólk hafa orðið vart við litla þjófinn fyrir nokkrum vikum. Hann virðist vera mjög útsjónasamur og nýta sér óspart tækifærið til að næla sér í poka af kartöfluflögum þegar dyrnar standa opnar.

Starfsmenn verslunarinnar hafa nefnt þjófinn Sam og er hann orðinn mjög vinsæll meðal íbúa í bænum. Þeir hafa tekið upp á því að greiða fyrir flöguskammt mávsins á hverjum degi.

Starfsfólk búðarinnar segir Sam vera mjög óeigingjarnan þar sem hann deili alltaf pokanum með félögum sínum á stétt skammt frá versluninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×