Erlent

Bretar senda orrustuþotur gegn rússneskum sprengjuflugvélum

Orrustuþotur af gerðinni Tornado. Bretar sendu tvær slíkar gegn rússnesku sprengjuflugvélunum.
Orrustuþotur af gerðinni Tornado. Bretar sendu tvær slíkar gegn rússnesku sprengjuflugvélunum. MYND/AFP

Breski flugherinn þurfti í gær að beita orrustuþotum til að koma í veg fyrir að tvær rússneskar sprengjuflugvélar myndu fljúga inn í breska lofthelgi. Er þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem breski flugherinn þarf að grípa til aðgerða af þessu tagi gegn rússneskum herflugvélum.

Þetta kemur fram á vefsíðu þýska dagblaðsins Die Welt.

Um var að ræða sprengjuflugvélar af gerðinni Tu96 en þær komu frá rússneskri herstöð á Kólaskaga. Vélarnar flugu í fyrstu meðfram norskri lofthelgi og sendi norski flugherinn tvær F16 orrustuþotur til að fylgja sprengjuflugvélunum eftir.

Rússnesku vélarnir stefndu í átt að norðurhluta Skotlands og ákváðu bresk hernaðaryfirvöld að senda orrustuþotur til móts við vélarnar. Þær sneru hins vegar til baka áður en þær flugu inn í breska lofthelgi.

Mikill kuldi ríkir nú í samskiptum Bretlands og Rússlands eftir að Rússar neituðu að framselja Andrei Lugovoi, sem grunaður er um morðið á Litvinenko, til Bretlands.

Fyrr í þessari viku ráku Bretar fjóra stjórnarerindreka Rússlands úr landi. Hafa Rússar hótað að svara því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×